Hleð…
+354 894 6090
Hafnartorg, Kalkofnsvegi 2, 3. hæð, 101 Reykjavík

Fjármögnun og fjárfestar

Um þessar mundir er rétti tíminn til að afla fjármagns og fjárfesta.  Þann 1. janúar sl. tóku gildi lög um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki.  Þar er að finna ákveðinn stuðning við nýsköpunarfyrirtæki og möguleika á skattafslætti til skattaðila, sem fjárfesta í slíkum félögum í formi hlutafjárhækkunar.  Skattafslátturinn er veittur bæði einstaklingum og fyrirtækjum.

Af þessu tilefni hefur verið ákveðið að bjóða upp á sérstakt námskeið á vegum Lexistu lögmannsstofu.  Námskeiðið er öllum opið og ekki er krafist sérstaks bakgrunns þátttakenda.  Á námskeiðinu verður farið yfir fjármögnun fyrirtækja, ofangreind lög og skilyrði þeirra, reglur sem gilda um hlutafjárhækkun og innborgað hlutafé, undirbúning undir öflun fjárfesta og viðhlítandi gögn, bréf með breytirétti (convertible stock), kosti og galla þess að fá fjárfesta inn í fyrirtæki, eftir hverju eru fjárfestar að leita og síðast en ekki síst, raunhæft verkefni.  Stefnt er að því að verkefnið verði ársreikningur nýsköpunarfyrirtækis.  Í verkefninu verður nemendum skipt upp í tvo hópa, annars vegar sem fulltrúar fyrirtækis og hins vegar sem fulltrúar fjárfestis.  Fyrirtækjahópurinn undirbýr stutta kynningu og dregur fram kosti þess að fjárfesta í fyrirtækinu.  Fjárfestahópurinn á að gefa sér tilteknar forsendur, spyrja spurninga og meta hvort fyrirtækið sé áhugaverður kostur miðað við þeirra forsendur.

Námskeiðsstaður verður annað hvort í Holtasmára eða Hlíðarsmára í Kópavogi og fer staðarvalið eftir fjölda þátttakenda.  Leiðbeinandi verður Anna Linda Bjarnadóttir hdl. auk gestafyrirlesara, sem verður m.a. viðskiptafræðingur með reynslu af eignastýringu fagfjárfestis.

Jafnframt er stefnt að því samhliða þessu námskeiði að bjóða upp á námskeið í gerð viðskiptaáætlunar og námskeið um ársreikninga.  Upplýsingar um þau námskeið verða settar inn á heimasíðuna á næstu dögum.

Verð fyrir námskeiðið er 40.000 kr. en þeir sem skrá sig og ganga frá greiðslu námskeiðsgjalds fyrir 19. febrúar fá 5.000 kr. afslátt.  Námskeiðsgjaldið greiðist inn á reikning Lexistu lögmannsstofu nr. 313-26-313100, kt. 470606-0100.