Hleð…
+354 894 6090
Hafnartorg, Kalkofnsvegi 2, 3. hæð, 101 Reykjavík

Kaupmálar

Hvað er kaupmáli?
 • Skilgreining

Kaupmáli er samningur milli hjóna um eignir þeirra. Í kaupmála er kveðið á um hvaða eignir teljist séreignir annars hjóna. Skilyrði þess að gera megi kaupmála er að fólk sé í hjónabandi eða gifting fyrirhuguð.

 • Réttaráhrif kaupmála

Réttaráhrif kaupmála ráðast af efni hans. Í kaupmála má gera eignir annars hjóna að séreign þess. Séreignir koma ekki til skipta við skilnað hjóna.

 • Eðli kaupmála

Heimilt er að tímabinda eða skilorðsbinda ákvæði í kaupmála, t.d. að kveða á um í kaupmála að tiltekin eign skuli vera séreign annars þeirra á meðan þau eru barnlaus o.s.frv.

 

Við hvaða aðstæður er gagnlegt að gera kaupmála?
 • Aðstöðumunur hjóna

Með kaupmála geta hjón gert tilteknar eignir að séreign annars hvors þeirra. Þetta á eðli málsins samkvæmt oftar við ef annað hjóna er eignamikið umfram hitt, þar sem það sem meira á getur tryggt sínar eignir með því að gera þær að sínum séreignum í kaupmála.

 • Skuldasöfnun annars hjóna

Ef annað hjóna hefur miklar skuldir á bakinu getur borgað sig að gera kaupmála til að komast hjá því að skuldheimtumenn hans gangi að eignum.

 • Áhættusamur atvinnurekstur annars hjóna

Ef annað hjóna á í áhættusömum atvinnurekstri eða viðskiptum getur verið mikilvægt að tilteknar eignir teljist séreign hins hjóna. Þetta er gert til þess að komast hjá því að gengið verði að eignunum af skuldheimtumönnum þess hjónanna, sem stendur fyrir atvinnurekstrinum eða viðskiptunum.

 • Stjúptengsl og erfðir

Þegar annað hjóna fellur frá er meginreglan sú að búi hjónanna er skipt milli þeirra og hlut hins látna síðan skipt á milli eftirlifandi erfingja. Ef það hefur verið gerður kaupmáli þá skal framfylgja honum þegar búinu er skipt milli hjóna. Þetta getur eðli málsins samkvæmt skipt sérstaklega miklu máli þegar hjón eiga stjúpbörn, þar sem þau erfa aðeins blóðforeldri sitt.

 

Dæmi:

Ef hinn látni B hefur átt barn/börn sem eiga aðra móður en eiginkonu hans A og þau gert með sér kaupmála þar sem B hefur gert eignir að séreignum sínum þá haldast þær utan skipta bús þeirra A og B. Hins vegar falla þessar eignir sjálfkrafa í dánarbú B, sem er skipt skv. lögum en hlutur dánarbúsins eykst í samræmi við þær eignir, sem eru séreignir hins látna og því getur kaupmáli skipt sérstaklega miklu máli þegar að stjúpbörn eru annars vegar.

 • Hver gerir kaupmála?
  1. Lögmenn
  2. Löglærðir fulltrúar lögmanna
 • Skráning kaupmála

Kaupmáli skal vera skriflegur og vottaður.  Sá, sem gerir hann, skal hafa lögræði. Ef viðkomandi hefur ekki lögræði þarf samþykki lögráðamanns. Kaupmála skal skrá í kaupmálabók, sem sýslumenn halda.