Hvað er erfðaskrá?
- Skilgreining
Erfðaskrá er einhliða löggerningur, sem menn geta gert hvenær sem er á ævi sinni og fjallar um það hvernig eignum viðkomandi skuli ráðstafað eftir andlát hans.
- Lögerfingjar
Ef menn eiga skylduerfingja er þeim aðeins heimilt að ráðstafa 1/3 hluta eigna með erfðaskrá. Skylduerfingjar eru maki og niðjar arfleiðanda.
Hvenær er mikilvægt að gera erfðaskrár?
- Sambúðarmaki
Þeir einstaklingar, sem kjósa að vera í óvígðri sambúð, hafa ekki gagnkvæman erfðarétt skv. lögum. Margir í þeirri stöðu hafa því nýtt sér það úrræði að gera gagnkvæma erfðaskrá. Ef sambúðarmakar eiga hvorki sameiginleg börn né börn úr fyrri samböndum er ekkert því til fyrirstöðu að arfleifa hvort annað að öllum eignum.
- Trygging erfðaréttar þegar ekki eru blóðbönd
- Fósturbörn og stjúpbörn
Margir fóstur- og stjúpforeldrar tengjast fóstur- og stjúpbörnum sínum djúpstæðum tengslum og vilja veita þeim arf, þá er það gert með erfðaskrá.
- Börn úr fyrra hjónabandi
Mögulegt er að tryggja erfðarétt barna úr fyrra hjónabandi eða sambúð með til dæmis auknum erfðarétti, allt að þriðjungi eigna.
Ráðstöfun eigna með erfðaskrá
- Hlutfall eigna
Eins og áður hefur komið fram er þeim sem eiga skylduerfingja, aðeins heimilt að ráðstafa 1/3 hluta eigna með erfðaskrá. Þeir sem eiga hins vegar ekki skylduerfingja mega ráðstafa öllum eigum með erfðaskrá.
- Aðrar takmarkanir
Sá sem ráðstafar eigum sínum með erfðaskrá verður að hafa svo kallað arfleiðsluhæfi, með því er átt við að viðkomandi verður að hafa lögræði og andlega heilsu þannig að hann geti ráðstafað eigunum á skynsamlegan hátt. Rétt er að vekja athygli á því að arfleifandi, t.d. foreldrar, geta gert væntanlegan arf til erfingja sinna að séreign með ákvæði í erfðaskrá. Þá kemur arfurinn ekki til skipta við hugsanlegan skilnað barnanna síðar meir. Unnt er að tryggja setu stjúpforeldra í óskiptu búi með ákvæði í erfðaskrá.
Túlkun erfðaskráa
Við túlkun erfðaskráa er stuðst við svo kallaða viljakenningu, þ.e. vilji arfleiðanda skal leiddur í ljós.